Metan eldsneyti

Hvað er metan

Á Íslandi sem erlendis er metan þekkt sem öruggur, umhverfisvænn og hagkvæmur kostur. Um allan heim er metan einnig mikið notað til húshitunar, eldunar og rafmagnsframleiðslu. Metan (nútíma-metan) er hægt að framleiða úr öllu lífrænu efni á yfirborði jarðar. SORPA bs. hefur framleitt nútíma-metan ökutækjaeldsneyti frá árinu 2000 úr hauggasi sem myndast við niðurbrot á lífrænu efni á urðunarstað höfuðborgar-svæðisins í Álfsnesi. Þar fyrir utan er metan helsta efnasambandið í jarðgasi en metan eldsneyti sem unnið er úr jarðgasi mætti nefna fyrritíma-metan þar sem það myndast í jarðlögum úr lífrænu efni sem var á yfirborði jarðar í fortíðinni. Orkuinnihald og eiginleiki metan sameindarinnar (CH4) er sá sami óháð því hvernig sameindin er mynduð. 

Metan í náttúrunni er lofttegund sem myndast við niðurbrot baktería á lífrænu efni við aðstæður þar sem súrefni (O) kemst ekki að lífræna efninu, eða með svonefndu loftfirrtu niðurbroti (gerjun) á lífrænu efni. Slíkar aðstæður skapast til dæmis í mýrum (mýragas) og votlendi og á urðunarstöðum þar sem súrefni á ekki greiðan aðgang að urðuðum lífmassa. Á urðunarstað SORPU bs. í Álfsnesi myndast gas við niðurbrot úrgangs á urðunarstaðnum sem nefnt er hauggas. Í Álfsnesi mælist efnainnihald í hauggasinu að jafnaði um 57% metan (CH4), 41% koldíoxíð (CO2) og um 2% aðrar lofttegundir.

Víða um heim er nútíma-metan framleitt í sérstökum verksmiðjum úr lífrænum úrgangi frá heimilum, fyrirtækjum, landbúnaði og annarri atvinnustarfsemi. Einnig eru orkuplöntur víða ræktaðar  til framleiðslu á nútíma-metani og er þá unnt að nýta allan lífmassa orkuplantanna til framleiðslunnar. Leifarnar úr framleiðsluferli nútíma-metans er næringarríkt hrat sem nýtist mjög vel til uppgræðslu lands eða næstu kynslóðar af orkuplöntum (áburður). Hér er því um að ræða góða nýtingu á lífmassa og sjálfbæra hringrás.

Lofttegundin metan er skilgreind sem gróðurhúsalofttegund þar sem hver sameind af metani (CH4) veldur um 21x meiri hlýnunaráhrifum í andrúmsloftinu en ein sameind af koldíoxíði (CO2). Með söfnun á hauggasi á urðunarstað, sem inniheldur 57% metan, skapast því mikill umhverfislegur ávinningur - söfnunin  varnar því að metan berist út í andrúmsloftið og valdi hlýnunaráhrifum í lofthjúpi jarðar. Eftir söfnun á hauggasi frá urðunarstað er metan einangrað úr hauggasinu (hreinsað frá)  í sérstakri hreinsistöð með svonefndri vatnsþvegilstækni (e. Water Scrubber Technology) og afurðin verður nútíma-metan ökutækjaeldsneyti í hæsta gæðaflokki með allt að 98% hreinleika, 125-130 oktan eldsneyti.

Með notkun á íslensku metan eldsneyti til að knýja ökutæki í stað jarðefnaeldsneytis ( bensíns og dísilolíu) er verulega dregið úr því magni af koldíoxíði (CO2) sem ella losnar út í umhverfið.  Enginn faglegur ágreiningur er um ávinninginn af notkun á íslensku metani.
 

Vistvæna eldsneytið metan fær Svansvottun

22.11.2016

Íslenska eldsneytið metan hlaut í dag norræna umhverfismerkið Svaninn og er þar með fyrsta íslenska eldsneytið til að hljóta slíka vottun.

Skoða frétt