Metan eldsneyti

Urðun og gassöfnun í Álfsnesi

Á öllum urðunarsvæðum myndast hauggas sem er blanda af koltvísýringi (CO2) og metani (CH4). Hauggasið myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni í haugnum og mynda hauggasblöndu. Metanið í hauggasinu er mjög orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða 21 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Betra er að brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa. Þannig eru gróðurhúsaáhrif urðunarstaðarins í Álfsnesi í lágmarki.

Í Álfsnesi mælist efnainnihald í hauggasinu að jafnaði um 57% metan (CH4), 41% koldíoxíð (CO2) og um 2% aðrar lofttegundir.

Urðunin fer fram á mjög skipulagðan hátt. Urðunarsvæðinu er skipt upp í ílangar 40 metra breiðar reinar og er urðað í eina rein í einu. Böggunum er raðað í þessar niðurgröfnu reinar og að lokum er úrgangurinn hulinn með 1,5 - 2,0 m þykku lagi af jarðvegi. Þegar lokið er við að urða í nokkrar reinar, er sáð í landið. 

Borað er í hauginn 1 ½ - 2 ½  árum eftir að urðun líkur í hverri rein. Boraðar eru um 25 gasholur á árinu  og götuðum plaströrum komið fyrir í holunni. Efst úr rörinu er svo lögn sem tengist safnæð. Safnæðarnar eru sex og tengjast þær saman í eina stofnlögn sem liggur að dælustöð, sem sér um að soga hauggasið frá holunum. Frá dælustöð liggur leiðsla að hreinsistöð Sorpu og að brennara.

Metangasframleiðsla í Álfsnesi árið 2014 samsvaraði 2,2 milljónum bensínlítra.

Í framtíðinni er gert ráð fyrir að planta trjám í toppi urðunarsvæðisins.

SORPA er í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í verkefni sem nefnist "Nýting á lífrænum úrgangi", lesa má um það hér.

Vistvæna eldsneytið metan fær Svansvottun

22.11.2016

Íslenska eldsneytið metan hlaut í dag norræna umhverfismerkið Svaninn og er þar með fyrsta íslenska eldsneytið til að hljóta slíka vottun.

Skoða frétt