Um fyrirtækið

Saga Metans

Metan hf. var stofnað 20. ágúst 1999 af Sorpeyðingu höfuðborgarsvæðisins bs. og Aflvaka hf. – þróunarfélagi Reykjavíkurborgar í þeim tilgangi að framleiða, þróa og markaðssetja íslenskt eldsneyti - metan. Ákveðið var fljótlega að leita til fleiri aðila og breikka eigendahópinn. Þá gekk Olíufélagið hf. til liðs við félagið ásamt Orkuveitu Reykjavíkur og Nýsköpunarsjóður tók við hlutverki Aflvaka. Í dag er aðeins einn eigandi að fyrirtækinu,  Sorpa bs. sem á 100% hlut.

Samkvæmt starfsleyfi Sorpu ber fyrirtækinu að safna svonefndu hauggasi, sem myndast við rotnun lífrænna úrgangsefna á urðunarstað fyrirtækisins í Álfsnesi og nýta það eftir fremsta megni.  Stefnan var því frá upphafi sett á að ná að meðhöndla hauggasið til framleiðslu á metan eldsneyti fyrir ökutæki – það tókst.

SORPA var frumkvöðull þessa verks undir traustri forystu Ögmundar Einarssonar þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann tók jafnframt að sér að leiða Metan hf. fyrstu skrefin og síðan tók Björn H. Halldórsson, umhverfisverkfræðingur, við starfi framkvæmdastjóra Metans og hefur gegnt því undanfarin ár. 

Um aldamótin 2000 var ljóst að notkun metan ökutækjaeldsneytis var í mikilli sókn um allan heim og að framboð á ökutækjum, sem nýtt geta metan myndi aukast stöðugt á 21. öldinni. Það lá því beinast við að þróa leiðir til að framleiða metan eldsneyti úr hauggasinu, en það innheldur um 54% af gastegundinni metan, CH4. Í dag framleiðir SORPA bs. íslenskt metan í hæsta gæðaflokki með allt að 98% hreinleika.  

Fyrstu bílarnir sem nýtt gátu metan eldsneyti komu til landsins árið 2000 þegar Hekla hf. reið á vaðið og flutti inn 21 bíl frá VW af mismunandi gerðum. Næstu árin fjölgaði bílunum og voru þeir af gerðinni, Volvo, Ford og Mercedes Benz og Citroen Berlingo.  Tveir metanstrætisvagnar komu til landsins haustið 2005 og Reykjavíkurborg byrjaði að skipta sorpbílaflota sínum yfir í metanbíla. Ýmsir stærri flutningabílar bættust í hópinn árin á eftir og SORPA setti skilyrði í útboð sín að flutningur færi fram á metanbílum. 

Mikilvæg tímamót urðu í nýtingu metans sem ökutækjaeldsneytis árið 2008 þegar Orkuveita Reykjavíkur lagði 10 km gasleiðslu frá Álfsnesi og upp á Bíldshöfða á afgreiðslustöð N1. Áður þurfti að setja metanið á gáma, sem dælt var úr á afgreiðslustað og var sú afgreiðslustöð  flutt í Hafnarfjörð og sett upp við Tinhellu. Afgreiðslustaðirnir voru því orðnir tvær árið 2010. Á báðum stöðunum varunnt að nálgast eldsneytið úr sjálfsala.

Metan hf. fékk Borgarholtsskóla í lið með sér og nemendur bílgreinabrautar fengu þjálfun í metanvélum og breytingu á bíl. Aðrir aðilar bættust fljótt í hópinn.  

Tímamót í íslenskri umferðasögu urðu helgina 24.-26. júlí 2009 þegar bíl var ekið í fyrsta sinn hringveginn á íslensku ökutækjaeldsneyti, metani. Ferðina fóru þeir Einar Vilhjálmsson, markaðsstjóri Metans hf. og Ómar Ragnarsson, fréttamaður. Bifreiðin sem þeir óku var með uppfærða vél úr bensíni yfir í metan sem nemendur Borgarholtsskóla höfðu framkvæmt í samvinnu við Vélamiðstöðina hf. Metanbirgðir voru fluttar með í kerru og gekk ferðin mjög vel og vakti verðskuldaða athygli. Á lokaspretti ferðarinnar settist iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, undir stýri og lokaði hringferðinni með akstri frá Rauðavatni að fjölorkustöð N1 á Bíldshöfða. Ferðin undirstrikaði farsælt frumkvöðlastarf eigenda Metans hf. og varpaði ljósi á þá miklu möguleika sem felast í því að framleiða umhverfisvænt ökutækjaeldsneyti hér á landi.

Vistvæna eldsneytið metan fær Svansvottun

22.11.2016

Íslenska eldsneytið metan hlaut í dag norræna umhverfismerkið Svaninn og er þar með fyrsta íslenska eldsneytið til að hljóta slíka vottun.

Skoða frétt